Sveitarfélögin segja konum á lágum launum stríð á hendur og snúa samræmdri launastefnu á hvolf!

Grein rituð af Signý Jóhannesdóttur, formanni samninganefndar SGS við sveitarfélögin. Á liðnum vetri hefur verið lögð mikil vinna í það að finna leiðir til að auka kaupmátt launafólks. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hækka lægstu laun, en hafa jafnframt möguleika á að koma til móts við millitekjuhópa sem setið hafa eftir í þeim hremmingum sem dunið hafa yfir. Þann 5. maí var skrifað undir samninga milli ASÍ og SA, þar sem kveðið var á um að kauptaxtar launafólks skyldu hækka um  kr. 12.000, 11.000 og 11.000. Þann 1. febrúar 2013 eiga taxtalaun því að hafa hækkað um kr. 34.000. Launahækkun þeirra sem ekki tækju laun eftir töxtum skyldi hækka á sama tíma um 4,25% 3,5% og 3,25% eða alls 11.4% með margfeldisáhrifum. Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið síðan þá taka mið af þessu. Má þar nefna samninga Reykjavíkurborgar við Eflingu, ríkisins fh. fjármálaráðherra við SFR og SGS og áfram mætti lengi telja. Samband íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd þess, hér eftir nefnd SNS, er á annari skoðun og telur að sveitarfélögin þurfi ekki að fylgja þessari stefnu, enda hafi þau aldrei verið spurð um álit sitt á þessari stefnu. Sveitarfélögin eru hvert öðru auralausara og ekkert undarlegt að þau kveinki sér undan þessum launahækkunum, gæti einhver sagt, sem ekki hefur séð excel æfinguna sem SNS hefur verið að föndra við sl. vetur Samninganefnd SGS hefur unnið að gerð nýs kjarasamnings í góðri samvinnu við SNS. Unnið hefur verið að úrbótum og samræmingu í texta samninganna, lagfæringu réttindakafla og fleira því líkt. Þegar krónur og aura hefur borið á góma hefur SNS vísað í bið eftir almenna markaðnum og stunið hefur verið undan óbilgirni LÍÚ. Rætt hefur verið um þörfina á því að lagfæra launatöfluna sem er mikið bjöguð eftir láglauna lagfæringar liðinna ára og mánaðarlegar eingreiðslur sem færðar voru inn í töflu. Rætt hefur verið um að launataflan þjóni ekki lengur starfsmatinu og fleira í þeim dúr. Samninganefnd SGS og undirrituð sem formaður hennar hefur vissulega ekki mótmælt neinu af þessu, en alltaf hnykkt á því að lagfæringarnar kosti mikla  peninga og ekki megi gleyma því að standa þurfi vörð um þá sem lægst launin hafa hjá sveitarfélögunum. Það fólk er í SGS, konur í umönnunarstörfum sem sótt er að með auknu vinnuálagi, skertu starfshlutfalli og jafnvel uppsögnum. Það hefði ekkert komið á óvart þó að tilboð SNS um launahækkanir, þegar það tilboð var loksins dregið upp úr hatti um miðjan maí, hefði verið eitthvert tilbrigði við stef vegna fjárhags sveitarfélaganna og þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á að endurvekja launatöfluna. En að tillagan reyndist vera tilræði gegn félagsmönnum í Starfsgreinasambandi Íslands kom okkur vissulega í opna skjöldu. Fulltrúar SNS játa að þeir geti ekki náð fram öllum markmiðum sínum með það takmarkaða fé sem sveitarfélögin hafa til ráðstöfunar. Nú þurfi að hugsa um millitekjuhópana, koma í veg fyrir atgervisflótta og gera starfsmatið skilvirkara. Hvaða markmiði er þá  fórnað? Það er markmiðinu að standa vörð um þá sem minnst hafa. Konurnar í umönnunarstéttunum fengu svo fínar hækkanir í gegnum starfsmatið á sínum tíma og eiga bara að vera sáttar við sitt. Bíddu nú við, kvennastörfin sem hafa verið vanmetin frá örófi alda, fengu leiðréttingu í gegnum starfsmatið og geta þá bara sætt sig við að fá t.d. 26.949 á grunnlaunin sín til 30. september 2014? Takturinn væri þá þessi: 1. júní 2011 kr. 8.439, 1.mars 2012 kr. 7.159, 1. mars 2013 kr. 4.560 og svo 1. mars 2014 þegar samningar annarra væru, lausir þá kæmi 6.791. Þetta þýðir með öðrum orðum að á sama tíma og almennt er verið að hækka laun um 34.000 kr. þ.e. til febrúar- mars 2014, fær starfsmaður sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, á leikskóla og grunnskóla kr. 20.158. Reykjavíkurborg samdi við Eflingu á grundvelli samræmdrar launastefnu. Það sem alvarlegast er í þessu sambandi er að það eru til stéttarfélög með á annað þúsund félagmanna í þessum störfum, sem skrifað hafa undir þetta tilboð SNS sem kjarasamning. Hvernig það gat gerst er mér algjörlega óskiljanlegt. Vissulega finnast tölur í launatöflu SNS sem líta vel út og viðkomandi einstaklingar sem þeirra njóta geta vel við unað. Þessir einstaklingar gætu verið að fá kr. 40.000 til 50.000 á samningstímanum og eru í millitekjuhópunum.  Einnig er að finna í töflunni mjög óraunverleg dæmi um launahækkanir sem í raun eru nánast bara tölur á blaði vegna þess að verið er að fella út lífaldursþrep, en lang stærsti hluti starfsmanna sveitarfélaga er í efsta þrepi. Það hefur oft verið haft á orði að dæmigerður starfsmaður sveitarfélags sé 47 ára gömul kona sem starfar við umönnun. Nú skal henni fórnað. Starfsgreinasamband Íslands mun mæta þessari herferð Sambands íslenskra sveitarfélaga gegn láglaunafólki, af fullri hörku. Signý Jóhannesdóttir Stýrir sviði opinberra starfsmanna innan SGS, en mun ekki gera það mínútunni lengur ef þetta stríð tapast.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag