Svíar koma flóttafólki í vinnu

Eitt stærsta verkefni ríkisstjórna og verkalýðsfélaga í Evrópu er straumur flóttafólks frá stríðshrjáðum svæðum, einkum Sýrlandi. Svíar hafa verið öðrum þjóðum ötulli í að taka við flóttafólki og hafa gríðarlega reynslu af því í gegnum tíðina. Þeir sem koma til Evrópu sem flóttafólk hafa lýst hinni hræðilegu bið í iðjuleysi á meðan verið er að fjalla um þeirra mál. Biðin er ávísun á þunglyndi og örvæntingu óvitandi hvað tekur við. Eftir biðina hræðilegu tekur svo oft við láglaunavinna sem er ekki í neinu samræmi við menntun, hæfileika og fyrri störf. Til að bregðast við þessu hefur sænska verklaýðshreyfingin í samstarfi við ríkið og atvinnurekendasamtökin komið upp kerfi sem metur menntun og reynslu fólks fljótt og öruggleg og kemur því til starfa, einkum og sér í lagi þar sem vantar fólk. Oft vantar eitthvað uppá þekkingu og þá eru námskeið til að mæta því auk þess sem fólki býðst námskeið í sænsku og fræðsla um sænska samfélagið jafnhliða. Þetta verkefni hófst þar sem skortur á vinnuafli er mestur, meðal matreiðslumanna, leikskólakennara og lækna. Næsta skref er að koma upp mati fyrir fólk sem hefur menntun og reynslu innan ferðaþjónustunnar, sjúkraflutninga, iðnaðs, flutninga o.s.frv.. Vert er að fylgjast vel með þessu verkefni sem virðist ætla að gefa góða raun fyrir flóttafólk og ekki síst samfélagið allt. Á fundi EFFAT í byrjun maí var fjallað sérstaklega um stöðu flóttafólks og hvað verkalýðshreyfingin getur gert í því. „Sænska leiðin“ var hluti af þeirri kynningu. Það kom mjög skýrt fram að það þýðir ekki að loka landamærum, fólk finnur sér að sjálfsögðu aðrar leiðir í örvæntingu sinni. Þá var mikið um það fjallað að verkalýðshreyfingin þyrfti að setja friðarmál á dagskrá aftur eins og hún var svo flink í á tímum kalda stríðsins. Þá var mikið rætt um hættuna á félagslegum undirboðum og mikilvægi þess að herða eftirlit svo flóttafólk í viðkvæmri stöðu væri ekki notað sem ódýrt vinnuafl til skaða fyrir allan vinnumarkaðinn.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA