Umhverfismál og jafnrétti í forgrunni á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

106. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var sett í Genf þann 5. júní síðastliðinn. Þingið er haldið árlega og er stærsti vettvangur heims þar sem stéttarfélög, stjórnvöld og atvinnurekendur frá öllum heimshornum koma saman og ræða vinnumarkaðsmál. Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) er elsta stofnun Sameinuðu þjóðanna og sú eina þar sem svona þríhliða samráð er viðhaft. ILO fagnar hundrað ára afmæli árið 1919 og hefur því staðið af sér heimsstyrjaldir, kreppur og byltingar í nær 100 ár. Undirrituð situr þingið sem hluta af Norrænum Genfarskóla, en hann hefur menntað fólk innan verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum síðan 1931 (http://geneveskolan.org/index.php/sv/). Þinginu lýkur ekki fyrr en 16. júní enda mikið á dagskrá. Það var þó ljóst við setninguna hver eru stóru verkefnin á framtíða vinnumarkaðnum. Guy Ryder, framkvæmdastjóri ILO lagði sérstaka áherslu á umhverfismálin, að verja Parísarsáttmálann og hætt að líta svo á að við getum annað hvort valið hagvöxt eða umhverfisvernd. Þetta tvennt yrði að fara saman á vinnumarkaði framtíðarinnar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá fjallaði hann um jafnréttismál og stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, en konur eru upp til hópa í áhættusamari störfum en karlar og þéna aðeins 77% af tekjum karla á heimsvísu. Misrétti í heiminum og innan ákveðinna landa er að aukast, átök eru að magnast og það reynir sannanlega á stofnanir eins og ILO að leita lausna og vinna að betri framtíð og heilbrigðari vinnumarkaði. Hátíðarræðu setningarinnar hélt forseti Úrúgvæ Tabaré Vázquez og var hann á svipuðum nótum og framkvæmdastjóri ILO þegar hann talaði um umhverfismál og jafnréttismál. Að auki ræddi hann töluvert um innflytjendur, en 4,4% af vinnandi fólki í heiminum myndu teljast innflytjendur í viðkomandi landi. Þetta er oft fólk sem er verra sett á vinnumarkaði þó það sé vissulega ekki algilt. Hann ræddi mjög mikilvægi menntunar enda er mikil hefð fyrir góðum menntastofnunum í Úrúgvæ og hann lagði áherslu á að alþjóða viðskiptasamningar innihéldu ákvæði um félagslegt réttlæti og réttindi fólks á vinnumarkaði. Þess má geta að Úrúgvæ er brautryðjandi á marga vegu, til dæmis er það fyrsta landið sem batt í lög 8 tíma vinnudag og fyrsta landið til að fullgilda sáttmála um réttindi þeirra sem vinna á heimilum annarra (domestic workers). Þá upplýsti hann að 75% af kjarasamningum sem undirritaðir eru í Úrúgvæ innihalda ákvæði um kynjajafnrétti og mættu mörg lönd taka það til fyrirmyndar. Drífa Snædal Framkvæmdastjóri SGS [gallery ids="115305,115304"]
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA