Vegferðin til réttlátara samfélags

Eftirfarandi grein eftir Ásgerði Pálsdóttur, formann Stéttarfélagsins Samstöðu, birtist í Húnahorninu sl. þriðjudag. Í greininni fer Ásgerður m.a. yfir stöðuna sem upp er komin á almennum vinnumarkaði og misskiptinguna í samfélaginu. Sextán aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands (SGS) afhentu Samtökum atvinnulífsins (SA) kröfur sínar þann 26. janúar síðastliðinn. Ein meginkrafan er að miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund á mánuði innan þriggja ára. Atvinnurekendur vildu ekki ræða kröfurnar en kölluðu til alþjóðar að þær þýddu 40-50% hækkun sem færu upp allan skalann og  stöðugleikinn færi veg allrar veraldar. En hvað er verið að tala um?  - Lægsti taxti í launatöflu SGS er nú kr. 201.317 á mánuði og hækkun upp í kr. 300 þúsund innan þriggja ára  eru 98.683 krónur, sem gefur vissulega háa prósentutölu í hækkun því grunntaxtinn er svo lágur. Lítum á krónutöluhækkunina sem ýmsar stéttir hafa fengið að undanförnu, þar sem samið hefur verið um 20-30 % hækkun. Ef laun að upphæð kr. 470.000 eru hækkuð um 20% gerir það 94.000 krónur. Ef laun sem eru 500.000 hækka um 30% gerir það 150 þúsund  krónur. Þaðan af hærri laun gefa auðvitað mun hærri krónutöluhækkun. Er einhver ósanngirni í þessum samanburði? Okkar samfélag hefur verið að þróast þannig á undanförnum árum að misskiptingin milli hópa hefur vaxið nánast með hverju ári.  Það er staðreynd að tekjuhæstu fimm prósent þjóðarinnar þénuðu 257,6 milljarða króna árið 2013. Það samsvarar 21,5 prósentum af heildartekjum Íslendinga. Sama hlutfall var 17,6 prósent árið 2012. Þeir ríku hafa orðið ríkari og þjóðarkakan verið skakkt skorin þannig að sneið þeirra lægst launuðustu hefur minnkað og kjör þeirra hafa rýrnað að sama skapi. Þar til viðbótar hefur velferðarkerfið  verið að molna, fólk þarf sífellt að borga meira fyrir heilbrigðisþjónustu og húsaleiga hefur hækkað svo að margir þurfa að borga meira en helming launa sinna í húsaleigu. Aðildarfélög ASÍ og BSRB sömdu fyrir ári síðan um 2,8% hækkun launa til eins árs (lægstu laun hækkuðu um  4-5%). Þá var lagt upp með að allur vinnumarkaðurinn fengi hækkanir á þeim nótum, farið yrði eftir uppskrift  norræna módelsins og með því yrði stöðugleikinn tryggður. Þegar búið var að semja við þessa hópa  fór ríkið og seinna sveitarfélögin á allt aðra braut og sömdu um umtalsvert meiri hækkanir við ýmsa hópa. Þá virtist ekki vera uppi neinn ótti við að raska stöðugleikanum. Stjórnendur SA og margir félagsmenn þeirra gerðu sig einnig seka um að fylgja ekki þeirri launastefnu sem þeir boðuðu, þegar kom að stjórnendum fyrirtækja. Hvernig er hægt að réttlæta það þeir lægst launuðustu þurfi einir að bera uppi stöðugleika í samfélaginu, þegar hægt er að semja við aðra hópa um ríkulegar hækkanir og þá virðast allt önnur lögmál gilda ?  Er það samfélag sem vill jöfnuð og réttlæti sem leyfir slíkt? Svari nú hver fyrir sig. Ásgerður Pálsdóttir, formaður Stéttarfélagsins Samstöðu.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA