Verulegt tekjutap landverkafólks vegna innflutningsbanns

Skýrsla Byggðastofnunar um Byggðaleg áhrif innflutningsbanns Rússa var birt í dag, 16. September. Í henni koma fram gríðarleg áhrif á tekjur landverkafólks og hugsanlega tekjuskerðingu fólks sem vinnur við frystingu uppsjávarafla. Talið er að innflutningsbann Rússa á matvælaafurðir komi verst niður á Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Höfn, Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ og Garði. Aðrar sjávarútvegsbyggðir verða fyrir litlum eða engum áhrifum. Dregnar eru upp þrjár sviðsmyndir af hugsanlegum áhrifum þar sem mismikill hluti afurða sem fóru á Rússlandsmarkað er sett í bræðslu annars vegar og á nýja markaði hins vegar. Ljóst er að bannið kemur verulega niður á landverkafólki sem vinnur í frystingu og gæti tekjuskerðingin orðið á milli 1,1 milljón á ári til 2,4 milljóna á ári. Það þýðir í raun 18-40% tekjuskerðing hjá fólki sem hefur haft uppgrip af árstíðarbundinni frystingu uppsjávarafla. Á móti kemur að vegna aukinnar bræðslu þarf að bæta við starfsfólki, allt að 220 manns og tekjur þar aukast á bilinu 310-350 milljónir á ári. Tekjutap sveitarfélaga vegna lægri skattgreiðslan er verulegt. Ekki einungis er um byggðabundin áhrif að ræða heldur einnig kynjabundin þar sem flestir starfsmenn í bræðslunum eru karlkyns og  fá þeir auknar tekjur en í frystingunni eru kynjahlutföllin jafnari. Tekjubreytingar hjá kynjunum koma því ólíkt niður ef ekki verða breyitngar á kynjahlutföllum í bræðslu. Í skýrslunni er ekki fjallað um áhrif á afleidd störf en ljóst er að mótvægisaðgerðir eru nauðsynlegar fyrir samfélög þar sem innflutningsbannið hefur hvað mest áhrif á. Starfsgreinasambandið hefur gert kröfu um að koma að þeirri vinnu sem nú fer í gang og lýtur að mótvægisaðgerðum. Skýrsluna í heild sinni má lesa hér: http://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/byggdaleg-ahrif-innflutningsbanns-russa-endanlegt.pdf
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA